Um Kátt Barnahátíð

 

Barnahátíðin Kátt hét áður Kátt á Klambra og var haldin ár hvert á Klambratúni í Reykjavík. Hátíðin hefur nú fært sig yfir á Víðistaðatún í Hafnarfirði árið 2024 og mun hér eftir ekki festa sig við eina staðsetningu. Hátíðin mun hún nú heita Barnahátíðin Kátt og verður haldin í 5.skipti þann 27.júlí n.k.

Aðgengi og öryggi
í fyrirrúmi

 

Barnahátíðin Kátt er lokuð almenningi, en einungis þau sem hafa keypt miða hafa aðgang að hátíðinni. Það er til þess að auka öryggi á hátíðinni og samhliða hafa aðgengismál verið bætt. Nú eiga öll, fótgangandi eða á hjólastólum að geta komist leiðar sinnar á Kátt.

Aðgengi og öryggi
í fyrirrúmi

 

Barnahátíðin Kátt er lokuð almenningi, en einungis þau sem hafa keypt miða hafa aðgang að hátíðinni. Það er til þess að auka öryggi á hátíðinni og samhliða hafa aðgengismál verið bætt. Nú eiga öll, fótgangandi eða á hjólastólum að geta komist leiðar sinnar á Kátt.

Markmið hátíðarinnar

 

Markmið okkar er að bjóða börnum og fjölskyldum þeirra upp á veglega hátíð þar sem barnamenningu er gert hátt undir höfði með fjölbreyttri dagskrá á sviði og túni.

Við bjóðum upp á fjöldann allan af fræðandi og skemmtilegum smiðjum þar sem börn og fjölskyldur þeirra fá tækifæri til þess að spreyta sig á margskonar listformum og kynnast einhverju nýju og óvæntu saman.

Við viljum ýta undir að fjölskyldur leiki sér saman og skapi saman minningar sem endast ævilangt. Svæðið er hannað út frá þörfum barna og hugað er að því að börn fái að leika sér út frá sínum eigin forsendum.

Kátt í gegnum tíðina

Hægt er að lesa í gegnum sögu hátíðarinnar í gegnum tíðina, en hátíðin hefur stækkað ört í gegnum árin með aðstoð sjálfboðaliða og traustra gesta sem mætt hafa ár hvert.

Framtíð Kátt

Áhrifamikill faraldur
Kórónuveirufaraldurinn hafði augljós áhrif á hátíðina en hugsjónir skipulagsteymisins hafa aldrei breyst. Við búum að margra ára reynslu, eigum aðföng sem fylla stóran gám, höfum byggt upp vítt tengslanet af fólki sem vill leggja verkefninu lið, byggt upp sterk sambönd við íslenskt atvinnulíf og fjölbreytta aðila sem vilja taka þátt. Framtíðarsýn okkar er að vera árlegur viðburður.

Breyttar aðstæður
Hátíðin byrjaði á Klambratúni en eftir að hafa reynt að endurvekja hátíðina í þeirri mynd sem tryggir öryggi og gæði okkar starfs án árángurs síðan 2022 var ákveðið að það er hægt að hafa Kátt hvar sem er og verður því Kátt hátíðin haldin í fyrsta skipti í 5 ár á Víðistaðatúni í Hafnarfirði, laugardaginn 27. júlí 2024!

Kátt á Klambra 2019

Hátíðin stækkar
Hátíðin var haldin í fjórða sinn sumarið 2019 og byrjaði skipulag strax eftir hátíðina 2018. Árið 2019 bættust enn fleiri í skipulagsteymið og fengum við inn aðila með sérstaka menntun í verkefna- og viðburðastjórn sem dæmi.

Árið 2019 var komin mikil reynsla í skipulagsteymið og hátíðin búin að skapa sér sess í huga fjölskyldufólks. Það mættu um 3.500 manns á hátíðina þetta árið og við sáum hvernig hátíðin þróaðist og stækkaði náttúrulega. Þetta ár, líkt og fyrri ár héldum við fast í hugsjónir okkar og einbeittum okkur að því að setja upp öruggt svæði, með svigrúmi fyrir afslöppun þar sem fjölskyldur gátu leikið sér saman.

Við fengum einnig inn matarvagna á svæðið í samstarfi við Reykjavík Street Food, buðum upp á fjölbreytta skemmtidagskrá, nú á tveim sviðum, hátíðarsviði og í diskótjaldi sem Nova styrkti og buðum upp á fjölbreyttar listasmiðjur og hreyfingu eins og barnajóga, graffiti-smiðju með Demon og raftónlistarsmiðju með DJ Flugvél og Geimskip.

Áfall sem breytti öllu
Skipulag hátíðarinnar þetta ár var einstaklega flókið og reyndi á allt teymið þegar hugmyndasmiður hátíðarinnar, hjarta hátíðarinnar, Jóna Elísabet Ottesen, lenti í alvarlegu bílslysi í Júní 2019. Óvissa var um hvort halda ætti áfram eða ekki en ákveðið var að halda hátíðina fyrir Jónu.

Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum bættist í hópinn sem var meira og minna fólk sem þekkti til og þykir vænt um Jónu og einstakur kærleikur ríkti yfir hátíðinni vegna þessa, jafnvel meira en áður.

Hátíðin 2019 rammaði mjög inn að hátíðin er ástríðuverkefni metnaðarfullra einstaklinga sem vilja vinna markvisst að því að efla barnamenningu og skapa rými þar sem foreldrar leika með börnunum sínum.

Kátt á Klambra 2018

Áhugi eykst
Þriðja árið okkar, sumarið 2018, fundum við snemma í skipulagsferlinu fyrir mikilli spennu meðal barna og foreldra fyrir hátíðinni. Það sýndi okkur að við værum að gera eitthvað rétt og var ánægjulegt að sjá hátíðina verða að föstu tilhlökkunarefni fjölskyldufólks. Eftirvæntingin virkaði sem drifkraftur til að bjóða upp á veglegri og umfangsmeiri dagskrá og buðum við þetta ár til dæmis upp á leiksýningar, danssýningu og annað sem ekki hafði verið áður.

Við þurftum að huga vel að þeim fjölda sem gæti mætt á svæðið og passað var upp á að hafa alla aðstöðu til fyrirmyndar hvað varðar öryggi og klósettaðstöðu. Þetta árið komu um 4.000 gestir á Klambratún og lukkaðist hátíðin mjög vel. Hátíðin stóð frá kl. 11.00 – 18.00 með skemmtidagskrá á sviði og fjölbreyttri afþreyingu á svæðinu öllu.

Gildin skipta máli
Þrátt fyrir aukna aðsókn þá hefur hátíðin haldið fast í gildi sín sem afslöppuð og notaleg hátíð fyrir börn og fullorðna til að leika saman. Líkt og árið áður þótti okkur mikilvægt að ýta undir að öll gætu notið hátíðarinnar sama hver fjárhagurinn væri og því gáfum við 700 miða til fjölskyldufólks í gegnum hjálparsamtök.

Þetta ár kom Arion banki inn sem máttarstólpi hátíðarinnar og fjármagnaði stóran part af hátíðinni. Uppsetning og aðkoma fyrirtækja hefur þannig þróast og bjóðum við fyrirtækjum upp á að koma inn á fjölbreyttan hátt.

Kátt á Klambra 2017

Vinna að hátíðinni 2017 hófst strax að lokinni hátíð árið 2016. Skipuleggjendum fjölgaði og margir sjálfboðaliðar komu að verkefninu. Á öðru ári var unnið að þeirri hugsjón af miklum metnaði að gera barnamenningu hátt undir höfði.

Horft til þrautreyndra
Þetta ár urðu Félagasamtökin Barnafestival stofnuð og fórum við á fullt í að sækja um styrki og tala við fyrirtæki um samstarf. Við litum mikið til barnahátíðarinnar Miniøya í Noregi hvað varðar uppsetningu og aðkomu fyrirtækja. Þannig buðum við samstarfsfyrirtækjum að vera með á hátíðinni og styrkja afþreyingu eða atriði, hvert fyrirtæki var þá með viðveru á hátíðinni og sá um sína afþreyingu eða atriði fjárhagslega og kom að uppsetningu. Líkt og á Miniøya var passað að ekki væru merkingar frá fyrirtækjum og auglýsingar á svæðinu sjálfu sem beinast að börnum.

Tóbaks- og vímulaus hátíð
Þetta ár var svæðið girt af til að tryggja að hátíðin væri tóbaks- og vímuefnalaus að fullu. Við fórum þá leið að selja inn á svæðið til að kosta hátíðina að hluta til, en héldum miðaverði eins lágu og hægt var. Öll afþreying á svæðinu var innifalin í miðaverðinu. Hátíðin okkar er fyrir öll og samhliða því að selja inn á hátíðina gáfum við mikið af miðum í gegnum allskyns hjálparsamtök til að tryggja að sama hver fjárhagur eða stað er hafi allar fjölskyldur aðgengi að hátíðinni. Það var merkilegt að sjá að einfalt hátíðarband eykur gæði hátíðarinnar í augum gesta, gerir hana veglegri og upplifun gesta ánægjulegri. Hátíðin 2017 lukkaðist mjög vel og um rúmlega 3.000 manns mættu og tóku þátt í dagskránni.

Gestir töluðu um hvað það var mikið öryggi að hafa svæðið girt af og þannig jókst frelsi barna á svæðinu til að leika sér og prófa sig áfram og foreldrar voru afslappaðri og nutu sín betur. Við vorum dugleg að auglýsa viðburðinn árið 2017, nýttum net- og prentmiðla og fjölmiðlar sýndu hátíðinni mikinn áhuga og við fórum í viðtöl sem var frábær kynning fyrir hátíðina. Margir leikir voru einnig á samfélagsmiðlum hjá okkur og samstarfsaðilum.

Fyrsta hátíðin árið 2016

Barnahátíð stofnuð af Jónu Elísabetar Ottesen og Valdísi Helgu Þorgeirsdóttur

Hátíðin var haldin í fyrsta sinn sumarið 2016 á Klambratúni. Fyrsta árið var okkar helsta markmið að skapa barnahátíð sem býður börnum og fjölskyldum þeirra upp á veglega skemmtidagskrá og fjölbreytta afþreyingu þar sem börnum gefst tækifæri til að taka virkan þátt og kynnast ýmsum listformum, menningu og íþróttum.

Verkefnið var hluti af lokaverkefni Jónu Elísabetar Ottesen í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun. Hátíðin er stofnuð af Jónu og Valdísi Helgu Þorgeirsdóttur íþróttafræðingi. Hátíðin gekk framar vonum og strax að lokinni hátíð var hvati til að halda áfram og skipuleggja Kátt á Klambra 2017.